Vatnslitanámskeið með Ragnari Hólm | 21.-23. nóvember 2025 |
21.-23. nóvember 2025
Vatnslitanámskeið | Ragnar Hólm
Fjárhúsunum í Fellabæ 21.-23. nóvember 2025
Markmiðið er að nemendur kynnist eðli vatnslita og tileinki sér ákveðna tækni við notkun þeirra. Rætt verður um undirstöðuatriðin; pappír, liti og pensla, myndbyggingu og ólíka tækni.
Verð er 32.000 kr. og innifalið í námskeiðsgjaldi er ein örk af Saunders Waterford vatnslitapappír, 300 gsm, 56x76 cm, en nemendur taki sjálfir með sér liti og annað sem til þarf.
(Verðið skiptist svona: Kennari tekur 25.000, innifalið í því er kennsla og ein örk af Saunders Waterford vatnslitapappír
Fjárhúsið tekur 7.000 kr. og innifalið í því er aðstaða, þrif, kaffi/te/drykkir og léttar veitingar. Mælum með nesti fyrir lengri dagana)
Ég legg þetta þannig upp að á föstudagskvöldinu hittumst við og ræðum málin, kynnumst aðeins hvert öðru og ég segi ykkur frá því hverju mig langar til að miðla yfir helgina. Við komum dótinu okkar fyrir í rýminu og fiktum kannski eitthvað í litunum ef fólk er í stuði, ein lítil og einföld skissa væri við hæfi. Tökum okkur þrjár klukkustundir í þetta frá kl. 19-22.
Prógrammið er annars svona:
Föstudagskvöld frá kl. 19-22, laugardagur og sunnudagur frá kl. 10-16.30.
Það gera samtals 15 klukkustundir en við tökum á að giska 30 mínútna hlé báða dagana til að maula nestið okkar.
Á námskeiðinu byrja ég á því að tala almennt um pappír, liti, pensla og ýmsar græjur, einnig myndbyggingu, hugarfar, áræðni og ýmislegt sem ég held að maður þurfi að tileinka sér til að ná árangri.
Á laugardag og sunnudag málum við síðan að lágmarki eina mynd á hverri "vakt", stig af stigi, ég byrja og þið notið síðan sömu tækni til að byrja á ykkar mynd, svo held ég áfram, þið takið við o.s.frv. þar til myndin er tilbúin.
Pappír
Ég nota mest Saunders Waterford, NOT 300 gsm í heilum örkum, sem fást til dæmis í Litum & föndri í Kópavogi. Stundum nota ég líka Archers í sömu þyngd og grófleika. Kínverski Baohong pappírinn er líka virkilega góður og ég hef heillast svolítið af honum undanfarið.
Þetta NOT þýðir að pappírinn sé kaldpressaður en EKKI heitpressaður og þá er hann miðlungsgrófur. Yfirleitt er talað um þrjár gerðir, þ.e. rough sem er sá grófasti, síðan NOT sem er miðlungs og svo heitpressaðan sem er spegilsléttur og getur verið gaman að nota líka. En NOT er minn pappír. Saunders, Archers eða Baohong.
Innifalið í 25.000 kr. kennslugjaldi er ein örk af Saunders Waterford NOT 300 gsm sem við brjótum um og rífum í a.m.k. 4 hluta sem duga þá í 4 myndir, jafnvel fleiri (eftir því hvað við viljum mála stórt, ég ríf arkir oft í 8 hluta og þá er hver mynd um 20x30 cm). Ef eitthvert ykkar er vant því að nota annars konar pappír þá er sjálfsagt að halda því áfram því maður þarf aðeins að læra inn á pappírinn sinn, hvernig hann tekur við vatninu o.s.frv. Aðalatriðið er að pappírinn sé 100% bómullarpappír (cotton) og sýrufrír því annars tekur hann svo „asnalega“ við vatninu og litunum. Endilega hafið með ykkur allt sem þið eigið af pappír, penslum og litum.
Litir
Ég nota mest Winsor & Newton professional liti (alls ekki Winton skólalitina, þeir eru alveg ómögulegir) og ég er líka farinn að nota meira af Daniel Smith í seinni tíð, en Winsor & Newton hafa verið uppistaðan hjá mér. Sennelier og Schmincke eru líka mjög góðir litir.
Litapallettan mín er annars þessi: Raw Umber, Burned Umber, Raw Sienna, Burned Sienna, Brown Madder, Indian Yellow, Yellow Ochre, Payne's Gray, Cerulean Blue, Ultramarine Blue, Cobalt Blue, Neutral Tint, Ivory Black, Alizarin Crimson, Opera Rose, Antwerpen Blue, Cadmium Orange, Lunar Black. Ég feitletra þá liti sem mér finnst mikilvægastir – það er ekki endilega þörf á að kaupa þá alla. Það borgar sig að vera ekki með of marga liti en „því miður“ hef ég í gegnum tíðina ég sankað að mér alls konar litum, algjörlega óvart, en getur svo sem verið gott að grípa til þeirra stöku sinnum.
Alla þessa liti (nema Lunar Black) fáið þið hjá Litum & föndri í Kópavogi og mig minnir að það muni afar litlu á verðinu hjá þeim og í þeim vefverslunum sem ég mæli með. Fram að þessu hefur litapellettan mín verið að uppistöðu professional litir frá Winsor & Newton en Lunar Black verður að vera frá Daniel Smith (þið finnið hann á vefsíðunum að neðan) og Raw Umber verður að vera professional Winsor & Newton sem fæst í Litum & föndri og á vefsíðunum sem ég nefni. Þessa tvo síðasttöldu nota ég mest í „taumatæknina.“
Penslar
Uppáhalds penslarnir mínir eru Herend frá Suður-Kóreu en þeir fást því miður ekki á Íslandi. Nakasato frá Japan eru líka mjög flottir. Escoda frá Barcelona á Spáni eru líklega þeir frægustu og auðvitað mjög góðir. Allar þessar tegundir og fleiri fáið þið til dæmis á síðunni hjá Arte21online í Córdoba, tekur trúlega 2-3 vikur að fá heim til Íslands: https://www.arte21online.com/gb/
Að mínu mati skipta penslar minna máli en góður pappír og alvöru litir, en samt alltaf gaman að eiga flotta pensla og ég á sannast sagna allt of mikið af þeim! Hins vegar er pínu snobb í kringum pensla og það er vel hægt að mála frábæra mynd með gömlum lakkpenslum eða jafnvel trjágreinum.
Gott er að eiga flata (hake), kannski 30 mm og 60 mm, og ávala. Til dæmis þessir penslar:
https://www.arte21online.com/gb/watercolours-brushes/29810-herend-hake-f1700-goat-hair.html
https://www.arte21online.com/gb/watercolours-brushes/29754-629-herend-brush-petit-gris-rf8800-flower-brush.html#/31-numero-4
https://www.arte21online.com/gb/watercolours-brushes/39677-29614-nakasato-goat-hair-and-deer-hair-shikageiri-rempitsu-dlb.html#/43-numero-7 (þessir penslar eru orðnir mjög vinsælir og eru skemmtilegir, losnar samt óþarflega mikið af hárum úr þeim við málun, en það má þá fiska þau upp af myndfletinum).
Á síðunni hjá Arte21online getið þið líka pantað liti, pappír og ýmislegt annað. Aðrar góðar síður (sem eru þó ekki með Herend pensla) eru https://www.artsupplies.co.uk/ og https://www.jacksonsart.com/.
Ef þið þekkið ekki Facebook- og Instagram síðurnar mínar þá eru þær hér: https://www.facebook.com/ragnarholm.art og https://www.instagram.com/ragnarholm62/. Þar eru reyndar abstrakt olíumálverk nokkuð áberandi en líka margar vatnslitamyndir sem þið ættuð e.t.v. að skoða. Heimasíðan mín er www.ragnarholm.art.
Bestu kveðjur,
Ragnar Hólm